Samband English

Opin bók 2022

Laugardaginn 3. desember kl. 16:00 verður bókmenntavakan Opin bók haldin í Edinborgarsal Edinborgarhússins. Opin bók er árviss viðburður í menningarlífnu á Ísafirði þar sem rithöfundar koma fram og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Boðið verður upp á kaffi og smákökur undir lestrinum. Bóksali frá Eymundsson mætir á svæðið.

Fram koma:

Benný Sif Ísleifsdóttir, Gratíana

Bergsveinn Birgisson, Þormóður Torfason: Dauðamaður og dáður sagnaritari

Elísabet Jökulsdóttir, Saknaðarilmur

Þórarinn Eldjárn, Tættir þættir

Örvar Smárason, Svefngríman

 

Um höfundana og bækurnar:

Benný Sif Ísleifsdóttir, Gratíana

Framhald Hansdætra. Framtíðarvonir Gratíönu eru að engu orðnar eftir árin í Bótarbugt en Evlalía móðir hennar er óbuguð enn. Með kænsku kemur hún Gratíönu suður og markar nýja stefnu fyrir þær Ásdísi litlu. En ekki allar mæður komast frá börnunum sínum. Áhrifarík og hjartastyrkjandi skáldsaga um sögupersónur sem lifa áfram með lesandanum.

Benný Sif Ísleifsdóttir hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2018 fyrir skáldsöguna Grímu sem kom út sama ár. Gríma vakti nokkra athygli, spurðist vel út meðal lesenda og hlaut  Íslensku hljóðbókaverðlaunin, Storytel awards. Í barnabókunum Jólasveinarannsóknin (2018) og Álfarannsóknin (2019) er hugvitsamlega fléttað saman fróðleik og fjöri en skáldsagan Hansdætur kom svo út árið 2020 og hlaut strax mikið lof gagnrýnenda og var tilnefnd til Evrópsku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2021 sendi Benný frá sér skáldsöguna Djúpið þar sem hún rýnir í samskipti kynjanna á kvennaárinu 1975. Í ár er svo komin út skáldsagan Gratíana sem er framhald Hansdætra.

Bergsveinn Birgisson, Þormóður Torfason: Dauðamaður og dáður sagnaritari

Ungur Íslendingur er sendur til að safna öllu sem hann kemst yfir á Íslandi af gömlum handritum og sögum og fara með til kóngsins í Kaupmannahöfn. Þetta er upphaf óvenjulegrar og spennandi sögu um ástríðu og forneskju, morð og skipbrot. En líka sagan af því hvernig vitneskja okkar og fróðleikur um víkingatímann varðveittist – og mátti oft litlu muna.

Sagnaritarinn Þormóður Torfason fæddist árið 1636. Hann naut m.a. handleiðslu Hallgríms Péturssonar skálds, heillaðist ungur af fornum fræðum, varð lagsbróðir og vinur Árna Magnússonar og dvaldi við skriftir í Kristjánsborgarhöll í skjóli Danakonungs. Síðar settist hann að í Noregi þar sem hann varð einn afkastamesti sagnaritari síns tíma – en var líka dæmdur til dauða fyrir að verða manni að bana.

Bergsveinn Birgisson skrifar sögu Þormóðs með sömu aðferð og hann beitti í hinni rómuðu bók Leitin að svarta víkingnum. Hann er líka þekktur fyrir vinsælar skáldsögur sínar, m.a. Svar við bréfi Helgu og Lifandilífslæk. Hann var nýverið sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Bergen, ekki síst fyrir að „miðla norrænum menningararfi til almennra lesenda.“

Elísabet Jökulsdóttir, Saknaðarilmur

Þegar fullorðin dóttir missir móður sína skríða áföllin upp úr gröfum sínum og veröldin fyllist af saknaðarilmi. Það skrifar enginn eins og Elísabet Jökulsdóttir. Hér veltir hún steinum og strýkur lesandanum móðurlega um kinn, gefur forneskjunni langt nef og heldur óþreytandi áfram leit sinni að ást, frið og sátt.

Síðasta skáldsaga Elísabetar, Aprílsólarkuldi, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin, og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021. Hún var auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2022.

Þórarinn Eldjárn, Tættir þættir

Þrjátíu og sjö áður óbirtir þættir sem fara úr einu í annað um hitt og þetta. Þar á meðal reynslusögur, minningar, athuganir, viðhorf, áhorf, sagnir og smælki. Auk þess nokkrar ferilskrár.

Meðal efnis: Nytjadraumar, Snorralaug í Helgadal, Nokkrar Bessastaðasögur, Þrír Halldórar, Skakkur ansats, Hirðskáldið, Hirðfíflið, Kristmann og Ursus, Guðlast í húsi biskups, Köttur frá Steini, Að vega nema og muna, Í safninu.

Fyrsta ljóðabók Þórarins, Kvæði, kom út 1974 og síðan hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi. Eftir hann liggja ótal ljóðabækur fyrir fullorðna og börn, smásagnasöfn og skáldsögur auk þess sem hann hefur átt aðild að mörgum sviðsverkum og fengist við þýðingar.

Örvar Smárason, Svefngríman

Svefngríman hefur að geyma átta smásögur sem vega salt á mörkum þess hversdagslega og þess fáránlega. Síðasti kaffibollinn fyrir heimsendi, eðlilegur útlimamissir, úthverfablinda, gervigreindarvinátta, óráð, ímyndun, sambönd og tengslaleysi.

Örvar Smárason er ljóðskáld, rithöfundur, tónskáld og tónlistarmaður. Svefngríman er fyrsta smásagnasafn hans en áður hafa komið út nóvellan Úfin, strokin og ljóðabókin Gamall þrjótur, nýir tímar. Örvar fékk nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir Svefngrímuna, auk þess hlaut smásagan Sprettur í safninu fyrstu verðlaun á Júlíönuhátíðinni.

Staðsetning og tími: Edinborgarsal 3. desember, kl. 16:00

© Edinborg Menningarmiðstöð
Merki DressUpGames