Samband English

Hvað er í Edinborgarhúsinu?

Húsið var opnað uppgert í miðbæ Ísafjarðar árið 2007. Gott aðgengi er að húsinu og næg bílastæði. Margvísleg starfsemi er í húsinu, bæði á sviði lista, menningarviðburða, ferðaþjónustu og veitingareksturs. Innangengt er í veitingahús sem tekur 100 manns við borð. Á jarðhæð í suðurenda hússins er einnig ferðaskrifstofan Vesturferðir með aðsetur. 

Menningarmiðstöðin í Edinborg hefur, í gegnum tíðina, staðið fyrir fjölmörgum viðburðum. Í húsinu er einnig starfræktur Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar. Skólinn var stofnaður til að veita almenna fræðslu á sviði myndlistar, leiklistar, tónlistar og danslistar. 

Edinborgarhúsið hefur alltaf vitnað um stórhug. Þegar það var reist árið 1907 bar það höfuð og herðar yfir flest mannanna verk á norðanverðum Vestfjörðum. Teikningar Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts, síðar húsameistara ríkisins, gerðu það óvenju glæsilegt þar sem það stóð á áberandi stað við Pollinn, stolt nýrrar aldar.

Sjálft er Edinborgarhúsið bæði listmunur og söguleg arfleifð. Að líta það augum er upplifun, að koma inn í það er ævintýri. Eins og Kögur og Horn og Heljarvík mun það seiða hugi þeirra sem róa á mið mannsandans, í senn látlaust og tilkomumikið, gamalt og nýtt – eins og lífið sjálft.

© Edinborg Menningarmiðstöð
Merki DressUpGames