Samband English

Opin bók 18. nóvember

Laugardaginn 18. nóvember kl. 16:00 verður bókmenntavakan Opin bók haldin í Edinborgarsal Edinborgarhússins. Opin bók er árviss viðburður í menningarlífnu á Ísafirði þar sem rithöfundar koma fram og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Boðið verður upp á kaffi og smákökur undir lestrinum. Bóksali frá Eymundsson mætir á svæðið.

Fram koma:

Einar Kárason, Heimsmeistari

Eiríkur Örn Norðdahl, Náttúrulögmálin

Finnbogi Hermannsson, Óspakseyrargátan

Helen Cova, Ljóð fyrir klofið hjarta

Vilborg Davíðsdóttir, Land næturinnar

Þórdís Helgadóttir, Armeló

Um bækurnar og höfundana:

Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur

Elfur hatar að ferðast. Einhverra hluta vegna er hún samt komin hingað, til þessa óspennandi smábæjar, með Birgi. Nema Birgir er allt í einu horfinn, ásamt bílnum og öllum farangrinum. Hún skilur þetta ekki, hann er ekki beint hvatvís. En það var eitthvað sem hann sagði kvöldið sem þau rifust í fyrsta skipti. Kvöldið áður en þau komu til Armeló.

Þórdís Helgadóttir, f. 1981, er menntuð í heimspeki, ritstjórn og ritlist. Smásagnasafn hennar Keisaramörgæsir hlaut lofsamlega dóma og leikverkið Þensla var sýnt í Borgarleikhúsinu þar sem Þórdís var starfandi leikskáld veturinn 2019–2020. Þórdís er ein af Svikaskáldum sem sent hafa frá sér þrjú ljóðverk og staðið fyrir margháttuðum viðburðum tengdum ljóðlist. Armeló er hennar fyrsta skáldsaga.

Heimsmeistari eftir Einar Kárason

Heimsmeistari er kynngimögnuð frásögn um glataðan snilling sem er ævifangi síns hrjúfa lundernis, listilega samin af sagnameistaranum Einari Kárasyni.

Í miðju köldu stríði öttu fulltrúar austurs og vesturs kappi við skákborðið í smáborginni Reykjavík. Heimsmeistaratitill var í veði og vestrið vann. Sigurvegarinn ungi var sérvitur og óbilgjarn en heimafólk hafði samúð með honum og gleymdi ekki afreki hans.

Mörgum árum síðar hefur þessi hornótti einfari komið sér í meiri háttar ónáð hjá stjórnvöldum heimalands síns og situr í japönsku fangelsi, einmana og smáður. Þá grípa velunnarar frá eyjunni í norðri til sinna ráða og sækja heimsmeistarann yfir hálfan hnöttinn – en flóttinn til Íslands er dýru verði keyptur.

Einar Kárason er fæddur í Reykjavík 1955. Hann varð stúdent frá MT árið 1975 og stundaði bókmenntafræðinám við Háskóla Íslands. Jafnframt vann hann ýmis störf til sjós og lands, bjó síðan í Danmörku í nokkur ár og skrifaði þar fyrstu skáldsögur sínar; hefur verið rithöfundur að atvinnu síðan.

Land næturinnar eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Land næturinnar er áhrifarík og spennandi skáldsaga þar sem Vilborg Davíðsdóttir leiðir lesendur í sannkallaða ævintýraför á slóðir víkinga í Austur-Evrópu fyrir rúmum þúsund árum.

Þorgerður Þorsteinsdóttir hefur lifað mikinn harm heima á Íslandi og heldur til Noregs þar sem örlögin senda hana í faðm skinnakaupmannsins Herjólfs. Saman halda þau til Garðaríkis, á fund væringja sem sigla suður Dnépurfljót og yfir Svartahaf með ambáttir og loðfeldi á markað í Miklagarði. Í landi næturinnar bíða þeirra launráð og lífsháski. Á augabragði er Þorgerður orðin ein meðal óvina og kemst að því að stundum kostar það meira hugrekki að lifa en deyja.

Sagan hefst þar sem þar sem þræðinum sleppti í fyrri bókinni um Þorgerði, Undir Yggdrasil, en fyrir hana var Vilborg tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2021. Sögulegar skáldsögur hennar hafa notið mikilla vinsælda enda varpa þær nýju ljósi á líf og aðstæður kvenna í fortíðinni.

Vilborg Davíðsdóttir fæddist á Þingeyri árið 1965. Hún lauk prófi frá Háskóla Íslands í hagnýtri fjölmiðlun árið 1991, BA prófi í þjóðfræði og ensku 2005 og MA í þjóðfræði árið 2011. Hún starfaði sem blaðamaður, dagskrárgerðarmaður og fréttakona á hinum ýmsu fjölmiðlum frá 1985 til 2000 en hefur síðan þá helgað sig ritstörfum.

Ljóð fyrir klofið hjarta eftir Helen Cova

Í Ljóð fyrir klofið hjarta fer skáldið með þér í innilegt ferðalag um landslag tilfinninga og endurómar hvísl tveggja heima.

Þessi ljóð blanda fallega saman Íslandi og Venesúela og skapa einstakan samruna sem fagnar bakgrunni skáldsins á sama tíma og skáldið kannar andstæðurnar milli hennar fyrsta og núverandi heimilis. Þetta þema tvíeðlis er fléttað í gegnum vísurnar og sýnir hversu flókin sjálfsmynd höfundarins er.

Sömuleiðis endurspeglar þessi könnun andstæðna – vetrar og sumars, ljóss og myrkurs, hlýju og kulda – innri baráttu og sigra sálar sem er klofin á milli tveggja heima.

Tungumálið verður öflugt verkfæri í höndum skáldsins þar sem íslenska og spænska renna óaðfinnanlega saman til að kalla fram tilfinningu fyrir áreiðanleika og einingu. Þetta tungumálasamspil eykur dýpt í ljóðasafnið og undirstrikar þá hugmynd að tungumálið sé ekki hindrun heldur brú milli menningarheima. Innleiðing móðurmáls auðgar ekki aðeins ljóðin heldur endurspeglar einlæga löngun höfundar til að heiðra og tileinka sér arfleifð sína.

„Ljóð fyrir klofið hjarta“ er óður til fegurðar bæði Íslands og Venesúela.

Helen Cova er Venesúelafæddur rithöfundur, stofnandi Karíba útgáfu og núverandi forseti Ós Pressunnar. Fyrsta barnabók hennar, Snúlla finnst gott að vera einn, kom út árið 2019 á íslensku, ensku og spænsku. Önnur bók hennar Sjálfsát, að éta sjálfan sig, smásagnasafn fyrir fullorðna, kom út árið 2020 á íslensku og ensku. Smásagnasafn Cova hefur verið valið af Þjóðleikhúsinu til að breyta í leikrit. Sömuleiðis hefur hún tekið þátt í mörgum viðtölum og upplestri víðs vegar um Ísland. Hún vinnur nú að fjölbreyttum bókmenntaverkefnum og í ár kemur einnig út eftir hana barnabókin Svona tala ég.

Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl

Náttúrulögmálin er söguleg skáldsaga þar sem brugðið er á leik með heimildir og staðreyndir svo úr verður karnivalísk og bráðskemmtileg frásögn af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingatímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar.

Snemmsumars árið 1925 kallar yngsti, fegursti og jafnframt óviljugasti biskup Íslands, séra Jón Hallvarðsson, til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins.

Eiríkur Örn Norðdahl, fæddur 1978, hefur verið ötull á ritvellinum síðan hann sendi frá sér sína fyrstu bók, Heilagt stríð: runnið undan rifjum drykkjumanna, 2001. Um svipað leyti stofnaði hann útgáfuna Nýhil með fleiri ungskáldum og undir því merki gaf hann út næstu bækur sínar en fyrsta skáldsaga hans, Hugsjónadruslan, kom út hjá Máli og menningu árið 2004. Eiríkur Örn hefur staðið að ótal menningarviðburðum, meðal annars undir merkjum Nýhils, og tekið þátt í útgáfum ýmissa safnrita. Hann er einnig afkastamikill á netinu þar sem hann gefur meðal annars út menningarritið Starafugl. Eiríkur Örn hefur vakið athygli víða um heim fyrir ljóð sín og flutning á þeim. Eiríkur Örn hefur sent frá sér skáldsögur og ljóð, ritgerðir, ljóðaþýðingar og uppskriftabók.

Óspakseyrargátan eftir Finnboga Hermannsson

Hefðbundin póstferð milli landshluta  í ársbyrjun 1910 varð að flóknu sakamáli þar sem fjármunir hurfu með óskýrðum hætti. Fjöldi manns kemur við sögu við rannsókn málsins og fær stöðu vitna.

Rannsókn og yfirheyrslur ná yfir að minnsta kosti tvær sýslur á Vestfjörðum og stóðu um margra mánaða skeið.

Aðalpersónur sögunnar eru bóndi í Gilsfirði sem fór í póstferð í forföllum landpóstsins og hins vegar lögreglustjórinn í Barðastrandarsýslu sem jafnframt er sýslumaður á Patreksfirði. Umtalsverða peninga vantaði í póstinn þegar komið var á áfangastað sem var Bær í Króksfirði og snýr rannsóknin að því hvað varð um peningana og hver bar ábyrgð á hvarfi þeirra.

Réttarhöld hefjast á Borðeyri við Hrútafjörð en færast síðan að Óspakseyri í Bitrufirði sem er innfjörður úr Húnaflóa. Þar hafði pósturinn og hestar hans átt næturstað í báðum ferðum; frá Breiðafirði og norður á Borðeyri við Hrútafjörð og sömu leið til baka. Rannsókn málsins beindist einkum að bóndanum en afleiðingar peningahvarfsins urðu  ófyrirséðar og alvarlegar.

Finnbogi Hermannsson er rithöfundur og fyrrverandi fréttamaður búsettur í Hnífsdal.

Staðsetning og tími: Edinborgarsal 18. nóvember kl. 16.

© Edinborg Menningarmiðstöð
Merki DressUpGames