Samband English

Jazzdagskrá í ágúst

Seinni hluta ágústmánaðar blæs Edinborgarhúsið til glæsilegrar jazzdagskrár. Fram koma þrjár hljómsveitir sem allar eiga það sameiginlegt að koma einnig fram á Jazzhátíð Reykjavíkur sem fram fer í mánuðinum.

Þýska tríóið Insomnia Brass Band ríður á vaðið með tónleikum föstudaginn 18. ágúst kl. 20:30. Insomnia er vasaútgáfa af lúðrasveit sem fer ótroðnar slóðir í yfirferð sinni um heillandi landslag hins frjálsa jazz, fönks, pönks og New Orleans lúðrasveita tónlistar. Hljómsveitin hlaut fyrstu verðlaun á þýsku jazzverðlaunahátíðinni sem hljómsveit ársins fyrr á árinu 2023. Hljómsveitinga skipa þau Anke Lucks, á básúnu, Almut Schlichting, baritón saxafón og Christian Marien á trommur.

Næst í röðinni er tríó píanóleikarans Benjamíns Gísla Einarssonar sem kemur fram fimmtudaginn 24. ágúst kl. 20:30. Tónleikarnir eru í tilefni af útgáfu fyrstu plötu Benjamíns, Line Of Thought. Platan er gefin út í samstarfi við Reykjavík Record Shop og Fjorgata Records. Með Benjamín Gísla leika þau Andreas Solheim á kontrabassa og Veslemøy Narvesen á trommur. Tónlistin byggir á norrænu djass hefðinni en er einnig innblásin af ljóðrænum laglínum Bill Evans, melankólískum leik Esbjörns Svenssons tríós og frjálsum spuna Cörlu Bley.

Að síðustu kemur fram Kvartett Freysteins, miðvikudaginn 30. ágúst kl. 20:30. Kvartetinn leiðir ísfirski kontrabassaleikarinn Freysteinn Gíslason. Freysteinn er ekki hræddur við að fara sínar eigin leiðir í tónlist og það má heyra í mörgum lögum hans. Lögin geta skipt ört um takt, tóntegund, með ómstríð tónbilum, örar skiptingar á ólíkum köflum. Tónlist Freysteins er myndræn þar sem ímyndunaraflið fær að njóta sín. Kvartett Freysteins ætlar að spila tónlist af plötunni “Í allar áttir en samt bara eina” . Platan er búin að fá góðar viðtökur og dóma í erlendum miðlum. Ásamt Freysteini koma fram saxófónleikarinn Helgir Helgi R. Heiðarsson, Hilmar Jensson sem leikur á gítar og trommuleikarinn Óskar Kjartansson.

Tónleikaröðin nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða og tónleikar Insomnia Brass Band njóta einnig stuðnings frá Goethe Institut og Berlin Senate.

Staðsetning og tími: Edinborgarhúsinu 18. 24. og 30. ágúst kl. 20:30.

© Edinborg Menningarmiðstöð
Merki DressUpGames