Samband English

Frá Vesturbyggð til Venesúela - Vestfirskar heimsbókmenntir

Vestfirðir hafa löngum verið líflegur bókmenntaheimur, ekki bara sem sögusvið, heldur sem heimkynni og vinnustaður starfandi rithöfunda, bæði fólks sem er uppalið á svæðinu og annarra sem hafa tekið það í fóstur. Á þessu fyrsta kvöldi vestfirskra heimsbókmennta mæta til leiks fimm höfundar sem hafa allir ólíka tengingu við svæðið og ólíkan uppruna – hin finnska Satu Rämö, sem hefur nýverið skrifað sinn fyrsta krimma, sem gerist einmitt á Ísafirði; Helen Cova frá Venesúela sem hefur verið búsett á Flateyri og Þingeyri síðustu ár, og gefið út bæði barna- og fullorðinsbækur, og er við það að standsetja forlag á Flateyri sem sérhæfir sig í rómansk-amerískum bókmenntum; Eiríkur Örn Norðdahl, sem er uppalinn Ísfirðingur frá Kópavogi, Akranesi, Iserlohn og Norðurárdal; Birta Ósmann Þórhallsdóttir, smásagnahöfundur og ljóðskáld sem rekur bókaforlagið Skriðu á Patreksfirði; og hin litháíska Greta Lietuvninkaite, sem auk þess að kenna ritlist á Ísafirði hefur gefið út vinsæla bók í Litháen, sem fjallar meðal annars um Ísland og Lithaén.

Vonir standa til þess að vestfirsk heimsbókmenntakvöld geti orðið að reglulegum viðburði þar sem lögð verður áhersla á höfunda á og frá Vestfjörðum auk bóka sem gerast á svæðinu.

Nánar um höfundana:

Birta Ósmann Þórhallsdóttir er fædd árið 1989 og er aðstoðarmaður kattarins Skriðu. Hún nam ritlist við Háskóla Íslands og myndlist við Listaháskóla Íslands og Escuela Nacional de Pintura, Escultura y Grabado „La Esmeralda" í Mexíkóborg. Nú í haust kemur út hennar fyrsta ljóðabók, Spádómur fúleggsins, en hún hefur áður gefið út örsagnasafnið Einsamræður (Skriða, 2019) og þýðingu úr spænsku á Snyrtistofunni eftir Mario Bellatin (Skriða, 2021). Hún hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2016.

Skriða bókaútgáfa var stofnuð árið 2019 og er ein af fáum bókaútgáfum á landsbyggðinni, staðsett í Merkisteini á Patreksfirði, en stofnandi og rekandi útgáfunnar er kötturinn Skriða. Skriðu er annt um fegurðina í smáatriðum og handverki og því eru bækurnar úr góðum pappír og handverkið í hávegum haft. Takmarkað upplag er einnig af bókunum, þar sem Skriða kýs að taka ekki þátt í offramleiðslu og sóun, heldur halda í heiðri bókinni sem grip.

Eiríkur Örn Norðdahl er rithöfundur frá Ísafirði. Hann hefur gefið út ótal bækur, ljóð, skáldsögur, ritgerðir og meira að segja matreiðslubók. Fyrir þær hefur hann hlotið ýmsa upphefð – meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin og tilnefningu til Prix Medici Étranger og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bækur hans hafa verið gefnar út á ótal tungumálum. Nýjasta bók hans er skáldsagan Einlægur Önd, en undir lok októbermánaðar kemur barnajólahryllingsbókin Frankensleikir í búðir, og er það fyrsta barnabók Eiríks. Á þessum vestfirska heimsbókmenntakvöldi hyggst Eiríkur hins vegar lesa úr óútgefinni ljóðabók sem fjallar meðal annars um Hamraborgirnar tvær, sjoppuna á Ísafirði og hverfið í Kópavogi.

Greta Lietuvninkaitė er litháískur rithöfundur, búsett á Ísafirði. Hún gaf nýverið út sína aðra bók, Milli tveggja stranda (Between Two Shores), þar sem hún býður lesandanum að kanna ólíkar hliðar hins kvenlega, sem og að horfast í augu við persónulegar skuggahliðar sínar. Fyrsta bók hennar, Feluleikur (Slėpynės) vakti mikla athygli í Litháen og er löngu uppseld. Hana gaf Greta út þegar hún var 25 ára gömul eftir að hafa útskrifast úr sálfræði og búið í Kanada í eitt ár. Næst ætlar Greta að skrifa um sjálfa sig og söguna af því hvernig hún flutti til Íslands í væntanlegu verki sem nefnist „Hennar rödd“ (Her Voice) sem og í tímariti Ós Pressunnar. Á Ísafirði er Greta þekkt fyrir að halda ritlistarsmiðjur undir heitinu „Write it out“ þar sem þátttakendum er kennt að beita ótal aðferðum til þess að vingast við vetrarblúsinn.

Helen Cova er Venesúelafæddur rithöfundur, stofnandi Karíba útgáfu og núverandi forseti Ós Pressunnar. Fyrsta barnabók hennar, Snúlla finnst gott að vera einn, kom út árið 2019 á íslensku, ensku og spænsku. Önnur bók hennar Sjálfsát, að éta sjálfan sig, smásagnasafn fyrir fullorðna, kom út árið 2020 á íslensku og ensku.

Smásagnasafn Cova hefur verið valið af Þjóðleikhúsinu til að breyta í leikrit. Sömuleiðis hefur hún tekið þátt í mörgum viðtölum og upplestri víðs vegar um Ísland. Hún vinnur nú að fjölbreyttum bókmenntaverkefnum og er stefnt að því að önnur bókin í Snúlla seríunni komi í verslanir í lok árs 2022.

Satu Rämö er finnskur rithöfundur, búsett á Ísafirði. Hún hefur gefið út fjöldann allan bókum sem hafa náð metsölu og hlotið ýmis verðlaun, allt frá ferðabókum um Ísland til endurminninga og væntanlegrar bókar um íslenskt prjón.

Fyrsta skáldsaga hennar er glæpasagan Hildur. Hún fjallar um rannsóknarlögregluna Hildi Rúnarsdóttur sem rannsakar mannshvörf hjá lögreglunni á Ísafirði. Ásamt finnska starfsnemanum og kollega sínum, Jakob Johanson – sem er mikill prjónasnillingur – afhjúpar hún dularfullar glæpaflækjur í samheldnum smábæ í kjölfar óútskýrðs hvarfs tveggja skólastúlkna. Seinni bókin í þessum flokki, Rósa & Björk, kemur út í mars 2023 og sú þriðja síðar sama ár. Á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru frá útgáfu Hildar í Finnlandi hefur bókin selst í 60 þúsund eintökum. Hún er væntanleg á þýsku, dönsku, eistnesku, sænsku og hollensku.

Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Staðsetning og tími: Bryggjusalur, 6. október kl. 20:00

© Edinborg Menningarmiðstöð
Merki DressUpGames