Samband English

Faghópur um skapandi leikskólastarf - Námskeiðsdagur á Ísafirði.

STUND & STAÐUR

Dags: Þriðjudagur 22. október 2013

Staður: Bryggjusalur

Verð: 5000 kr.

Faghópur um skapandi leikskólastarf kynnir:

Námskeiðsdag á Ísafirði.

 
Faghópur um skapandi leikskólastarf kynnir Námskeiðsdag á Ísafirði þriðjudaginn 22. október 2013.
Í boði er stórkostleg dagskrá með vestfirsku og finnsku hæfileikafólki með áralanga reynslu af skapandi starfi með börnum. Við lofum skemmtilegum degi með fyrirlestrum og verklegum æfingum í bland. Það á sko engum að leiðast í faðmi vestfirskra fjalla í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.
Námskeiðsdagurinn er opinn öllu starfsfólki leikskóla hvaðan sem er af landinu og er áhugasömum bent á að sjá sjálfir um að koma sér til Ísafjarðar. Flugfélag Íslands flýgur frá Reykjavík kl. 8:55 og er komið til baka kl. 18:15.
Námskeiðsgjald er afar hóflegt eða 5000 kr. og hægt er að sækja um styrk í endurmenntunarsjóð stéttarfélaganna.
 
Dagskrá:
10:15 Leikræn tjáning – Þegar þú brosir og heimurinn brosir með þér. Elfar Logi Hannesson.
11:40 Að nota skráningu sem verkfæri við að skoða hugmyndir leikskólabarna. Linda Björk Ólafsdóttir
12:15 Hádegisverður í boði Faghópsins
13:00 Að kenna dans og leiklist í leikskóla. Henna-Riikka Nurmi og Marjo Lahti
14:20 Kaffihlé
14: 40 Trommur og Töfrateppi – tónlist með börnum á leikskólaaldri. Soffía Vagnsdóttir.
 
Skráning og nánari uppl.á heimasíðunni:
http://www.ki.is/listgreinafaghopur
listgreinakennarar@gmail.com
 
Faghópur um skapandi leikskólastarf, er hópur fagfólks sem hefur áhuga, metnað og vilja til að styðja við skapandi leikskólastarf.
 
Um dagskráratriðin
Henna-Riikka Nurmi danskennari og Marjo Lahti leikari kenna við Listaskólann (LRÓ) í Edinborgarhúsinu Ísafirði. Þær hafa báðar komið að öflugri listkennslu fyrir börn og fullorðna í tónlist, dansi, myndlist og leiklist. Marjo Lahti sem er þekktur leikari og leikstjóri í Finnlandi hefur m.a. verið með „baby-leikhús“.
Báðar hafa þær leiðbeint leikskólakennurum í leiklist með börnum. Þær segja frá og verða með skemmtilegar æfingar með þátttakendum.
Linda B Ólafsdóttir aðstoðarleikskólastjóri gerði
starfendarannsókn á árunum 2011-2012 sem hafði það að markmiði að skoða hvernig hugmyndir barna birtast í skapandi starfi, hvernig þau skoða og þróa þær með félögum og hvernig kennarinn styður við það ferli. Í rannsókninni studdist Linda Björk við skráningu í þeim tilgangi að safna og þróa þau gögn sem lágu til grundvallar.
Soffía Vagnsdóttir tónmenntakennari og skólastjóri er að gefa út nýtt tónlistarnámsefni fyrir börn, Trommur og Töfrateppi. Efni bókarinnar er allt frumsamið af henni og hefur að geyma lög, hljóðsögur, þulur og tónlist sem ætluð eru börnum á aldrinum 2 – 8 ára. Bókinni fylgja tveir geisladiskar með öllu efni ásamt undirleik við sönglög og þulur. Soffía verður með stuttan inngang og síðan fá þátttakendur verklega kennslu í efni bókarinnar.
Elfar Logi Hannesson leikari gaf út bókina Leikræn tjáning fyrir nokkrum árum. Bókin er banki æfinga í leiklist og hefur verið mikið notuð í leiklistarkennslu í skólum um land allt. Elfar Logi mun fara um víðan völl í sínu erindi, segja frá eigin reynslu í kennslu, gefa góð ráð og koma með dæmi um hvernig hægt er að setja upp kennslustund í leikrænni tjáningu. Síðast en ekki síst munu þátttakendur fá að spreyta sig og reyna æfingarnar á eigin skinni. Útgöngupunkturinn í þessum kúrs er einfaldur eða einhvernveginn svona:
When you're smiling, and the whole world smiles with you.
 
© Edinborg Menningarmiðstöð | Vefsmíði: Styx ehf. | CMS: WebSmith
Merki DressUpGames