Samband English

Út í buskann- Andlit náttúrunnar

STUND & STAÐUR

Dags: Fimmtudagur 11. júlí 2013

Tími: 17:00

Staður: Rögnvaldarsalur

Sýningin Andlit Náttúrunnar opnar í Edinborgarhúsinu á morgun fimmtudag kl. 17:00.

 

Listamennirnir hafa þetta að segja um verkefnið:

 

Við erum listhópurinn Út í buskann. Hópurinn samanstendur af Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur, myndlistarkonu, og Magnúsi Andersen ljósmyndara. Hugmynd verkefnisins er að fá listamenn úr mismunandi áttum til að ferðast um náttúru Ísland, fá þaðan innblástur og búa til listaverk úr því. Ekkert er fyrirfram ákveðið, heldur spinnum við af fingrum fram og tökum öllum óvæntum uppákomum fagnandi.

 

Ferðalagið átti að hefjast á tónlistarhátíðinni á Rauðasandi, en vegna veðurs var hátíðin færð yfir á Patreksfjörð. Við vorum svo heppin að fá lánað hús á Bíldudal, og þar settum við upp höfuðstövar verkefnisins. Þaðan upphófst mikið flakk á milli fjarða yfir helgina, fórum á Látrabjarg, gistum á Rauðasandi og kíktum á Tálknafjörð og Þingeyri. Mestum tímanum eyddum við í þó í lítt förnum fjörðum og á hálendinu.

 

Við ferðumst um á gamalli Toyota Corollu sem er bara með kasettuspilara og eru því gamlar kasettur með klassískum perlum og slögurum fimmta áratugarins búnar að setja tón ferðarinnar ásamt Rás 2 á langbylgjunni. Þar að auki er kasettuspilarinn bilaður og kemur fyrir að ein kasettan festist klukkutímum saman í spilaranum, og yfirleitt eru það bresk barnalög eða gömul sænsk ástarlög.

 

Við byrjuðum á því að taka myndir og gera skissur af nokkurnveginn öllu sem við sáum, og smám saman þróaðist hugmyndin að gera portrett myndir af steinum á Vestfjörðum. Magnús hefur numið auglýsingaljósmyndun og er vanur að taka myndir af fólki. Því fannst okkur áhugavert að nálgast náttúruna á þann hátt og sjá andlitin í náttúrunni. Ferðin er búin að vera skemmtilega tímalaus, og við stóðum okkur að því einhverntímann klukkan 2 um morguninn í svefngalsa á Rauðasandi að standa fyrir framan saklausa steina og hlæja að andlitunum sem við sáum í þeim. Þannig datt Hallveigu í hug að gera skopteikningar af andlitunum sem við sjáum í steinunum.

 

Nú er komin fullmótuð mynd af verkefninu; Magnús tekur andlitsmyndir af steinunum, Hallveig aðstoðar með lýsingu og teiknar þá síðan upp í einskonar skopútgáfu og málar nokkur olíuportrett, bæði af steinunum og náttúrunni sem við höfum verið að sjá.

 

Þetta er allt í allt búið að vera mjög skemmtilegt. Við höfum lítið ferðast um Vestfirði og það er sérstaklega gaman að gera það með listina í huga. Við búum bæði erlendis, Hallveig í Madrid og Magnús í London, þannig að það er algjör snilld að komast aðeins út í náttúruna og klippa á öll samskipti við umheiminn og leyfa innblástrinum að flæða um óheftum. Við erum búin að keyra út um allt, búin að stoppa í hífandi roki og rigningu uppi á miðju fjalli til að ná mynd af steinum sem okkur finnst skemmtilegir. Veðrið hefur ekki alltaf verið sem best á kosið, en það gerir ferðalagið bara enn meira spennandi.

 

Okkur fannst mikilvægt að skjalfesta allt ferðalagið og höldum við úti bloggi á http://utibuskann.tumblr.com. Þar er hægt að finna nokkrar skemmtilegar myndir af ferðalaginu og því sem við erum að gera.

 

Þökkum Menningarráði Vestfjarða fyrir veittan stuðning

 
© Edinborg Menningarmiðstöð | Vefsmíði: Styx ehf. | CMS: WebSmith
Merki DressUpGames