Samband English

Ferðalagið - The journey

STUND & STAÐUR

Dags: Laugardagur 1. desember 2012

Tími: 16:00

Staður: Slunkaríki

Halldór Ásgeirsson sýnir í Slunkaríki Edinborgarhúsins verk sem hann hefur hugleitt undanfarin ár og mun nú líta dagsins ljós. Yfirskrift sýningarinnar er Ferðalagið en Halldór hefur frá sinni fyrstu tíð sem myndlistarmaður haft áhuga á ferðalögum en hann orðar það svona:

 

"Frá unglingsaldri hefur líf mitt meira og minna snúist um ferðalagið, útþránna að kanna og sjá heiminn sem hefur einnig síast inn í mína list frá upphafi. Fyrsta alvöru listaverkið sem ég gerði tvítugur að aldri finnst mér vera dagbók með textum og teikningum ásamt ljósmyndum frá 9 mánaða ferðalagi um Austurlönd fjær 1977."

 

Halldór Ásgeirsson hefur frá upphafi unnið með náttúruröflin þar sem jörðin, vatnið, loftið og eldurinn koma við sögu sem hann tjáir í gegnum mismunandi miðla, svo sem teikningar og málverk, kvikmyndir, ljóð, gjörninga, innsetningar, umhverfis-verk o.s.frv.
Þema verka hans er oft byggt á náttúrulegum eiginleikum landsins eins og eldgosum en árið 1992 fór Halldór að sjóða hraun. Þegar hraunið er hitað með logsuðu verður það að rauðum vökva í nokkrar sekúndur og bráðnar áður en það umbreytist að lokum í svartan glerung.

Að þessu sinni er undirtitill sýningarinnar " Ég er einsog bátur á þurru landi sem þarfnast endurnýjunar ".
Vestfirðir 1986 - 2007.


Sýningin í Edinborgarhúsinu fjallar um alls 9 ferðir Halldórs til Vestfjarða á þessu tímabili en þar má nefna 4 sýningar í Slúnkaríki á Ísafirði auk ferða á ólíkum tímum ársins til annarra staða á Vestfjörðum sem Halldór túlkar á margvíslegan hátt í teikningum sínum, ljóð-drápum og ljósmyndum.
 

 

 

Verið velkomin á opnun þann 1.desember kl. 16:00

 

Þökkum menningarráði Vestfjarða fyrir veittan stuðning. 

© Edinborg Menningarmiðstöð | Vefsmíði: Styx ehf. | CMS: WebSmith
Merki DressUpGames