Samband English

Dampskipið Ísland í Edinborgarhúsinu fimmtudaginn 10. nóv. kl. 20

STUND & STAÐUR

Dags: Mánudagur 17. október 2011

Litli leikklúbburinn sýnir Dampskipið Ísland í Edinborgarhúsinu kl. 20 á fimmtudaginn 10. nóvember. Verkið, sem er eftir Kjartan Ragnarsson, er í leikstjórn Halldóru Björnsdóttur sem þekktari er á sviðinu en bak við tjöldin en hún lék mörg titilhlutverk hjá Þjóðleikhúsinu frá því að hún útskrifaðist út Leiklistarsskóla Íslands 1991 þar til 2008. Æfingar hafa staðið yfir frá því í byrjun september en um er að ræða 82. uppfærslu LL á 48. leikári félagsins.
Leikritið skrifaði Kjartan fyrir réttum 20 árum fyrir útskriftarhóp Leiklistarskóla Íslands það árið, en þá var hefð fyrir því að lokaársnemar fengu nýtt íslenskt verk upp í hendurnar til að glíma við áður en haldið var út í hinn stóra leikhúsheim. Í tilkynningu frá LL segir um verkið: „Leikritið segir frá fólki sem er saman komið um borð í farþegaskipinu Íslandi sem sigldi á milli Íslands og Danmerkur frá árinu 1919. Þetta er á bannárunum, skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina og stutt í „Charleston“- æðið sem greip um sig víða heim. Örlög þessa farþegaskips urðu þau að það strandaði við Skotland árið 1937. Það sigldi á vegum Sameinaða gufuskipafélagsins. Eimskipafélag Íslands var stofnað 1919.
Kjartan Ragnarsson tileinkar þetta verk dönsk-íslensku söngkonunni Engel Lund (1900-1996) eða Göggu eins og hún var oft kölluð. Þegar hún var um tvítugt fékk hún í stúdentsgjöf frá foreldrum sínum ferð til Íslands en fjölskyldan flutti til Kaupmannahafnar þegar hún var 11 ára gömul eftir að hafa búið á Íslandi. Faðir hennar var danskur lyfsali í Reykjavík.
Eftir að hafa menntað sig í sönglistinni kenndi Gagga söng í Reykjavík í mörg ár. Hún var þekkt söngkona víða um heim og hafði það fyrir sið að ljúka öllum tónleikum með íslensku þjóðlagi. Um 1960 gaf hún út plötu og bók um íslensk þjóðlög. Tina Larsen er unga stúdínan í verkinu sem við kynnumst á sviðinu ásamt ýmsum skrautlegum farþegum. Hjónin Ólafsson, frú Baggesen og frk.Paulsen eru meðal farþega að ógleymdu skáldinu, lækninum og Sigurði háseta um borð. Þá eru í skipinu söngvarinn og glæsikonan og hermaðurinn Oddur. Þótt verkið gerist árið 1919 leyfðum við okkur það frelsi að seilast í andrúmsloft millistríðsáranna og „Charleston“ sem náði hámarki nokkrum árum síðar. Við kynntum okkur sögu fólksins frá þessum tíma, tískuna, tónlistina og dansinn. Það er gaman að rifja upp sögur með þessum hætti, sögu fólksins og þegar öllu er á botninn hvolft sögu okkar.“

Miðasala er í síma 8565455. - Aðgangseyrir er kr. 2.500,-

© Edinborg Menningarmiðstöð | Vefsmíði: Styx ehf. | CMS: WebSmith
Merki DressUpGames